top of page
Search

Fólkið og fjártæknin


Sveinn Valfells
Freyr Ólafsson

Nýlega gekk ég í Fjártækniklasann. Tæknilega var það ekki ég, heldur 4702080230, en hver man ólógískar talnarunur? Tölvurnar hjá Skattinum eru flinkar við það, manneskjur tengja heldur við félagið mitt, Stöku ehf, en meira að segja viðskiptavinir mínir pæla fæstir mikið í félaginu, þau tengja við mig persónulega og er alveg sama um kennitöluna sem sendir reikningana og gefur tölvunum hjá Skattinum girnilegar tölur til að kjamsa á.


Kjarninn í klasanum góða snýst í mínum huga einmitt um þetta, þetta persónulega og mannlega sem við skiljum og þurfum. Ég er í honum vegna tækifæranna til að hitta allt flotta fólkið í klasa-fyrirtækjunum öllum, en fyrst og fremst er ég í honum vegna Fjártækni-dúettsins sjálfs, Gulla og Þórdísar, sem skilja svo vel þessa þörf fyrir fólk að tengjast og mikilvægi þess. Þau skilja að fólk í stöndugum bönkum þarf samtal við spennandi sprota, ráðgjafar við rafmyntagúrú o.s.frv. Þau Gulli og Þórdís hafa lag á að skipuleggja margvíslegar samkomur, okkar tíma réttir, vitandi að það er lítið gaman í réttum ef þar er aðeins fé, en ekki fólk!

Monerium Logo

Í þessu sama kristallast kjarninn í árangri fyrirtækjanna í Fjártækniklasanum og nútíma tækniþróun yfirhöfuð. Þó unnið sé með tölur og tækni á bakvið tjöldin, þá snýst hún fyrst og fremst um fólk. Að skilja takmarkanir mannskepnunnar og laga sig að henni, að gera flókna hluti einfalda, spara notendum sekúndur hér og hvar, auka þægindi, gegnsæi, sjálfvirkni, yfirsýn. Að ná jafnvel að gera hóflega spennandi og flókna hluti heillandi og öllum aðgengilega. Þá gildir vel slagorðið þekkta, allir vinna!


 

Freyr Ólafsson er stjórnendaráðgjafi, fyrirlesari og pistlahöfundur á freyr.is. Félag Freys, Staka ehf., er eitt nýjasta fyrirtækið í Fjártækniklasanum.

bottom of page