ALÞJÓÐLEGIR SAMSTARFSKLASAR
Fjártækniklasinn á í góðu samstarfi við aðra erlenda fjártækniklasa, sér í lagi á Norðurlöndunum. Samstarfið felur í sér miðlun á þekkingu og tengslum, tækifæri fyrir sprotafyrirtæki til að fóta sig á erlendum mörkuðum, alþjóðlega fjártækniviðburði og fleira.
Sthlm Fintech Week
Svíþjóð
Sthlm Fintech Week er árleg fjártæknivika sem fer fram í Stokkhólmi. Áhersla er lögð á miðlun þekkingar og að byggja upp innviði sænskrar fjártækni. Yfir vikuna koma saman helstu stofnanir, fyrirtæki og sérfræðingar í fjártækni, deila og miðla þekkingu sinni og fræðast um það sem er að gerast í fjártækni. Þar má finna fyrirlestra, umræður og fleiri viðburði um ýmis málefni innan fjártækni.
European Blockchain Convention
Spánn
European Blockchain Convention er árleg bálkakeðjuráðstefna sem fer alla jafna fram í Barcelona. Markmið ráðstefnunnar er að styðja við notkun bálkakeðjutækni í Evrópu. Hún var fyrst haldin árið 2018 og hefur síðan árlega laðað til sín mikinn fjölda gesta, fyrirtækja, fjárfesta og fræðimanna úr bálkakeðjuheiminum.
FinTech Aviv
Ísrael
Fjártækniklasinn í Tel Aviv var stofnaður 2014 og hafa um 30.000 einstaklingar starfað á vettvangi hans. FinTech Aviv starfar með og þjónar öllum þáttum fjártæknivistkerfisins, þ.m.t. fjártæknifyrirtækjum, frumkvöðlum, stærri fyrirtækjum, alþjóðlegum bönkum og tryggingafyrirtækjum, sem og fjárfestum.
Swiss Finance + Technology Association
Sviss
Samtökin stuðla að þróun svissneska fjártæknivistkerfisins. SFTA styður við fjölbreyttan hóp einstaklinga, sprotafyrirtækja, fjárfesta, fyrirtækja og annarra hagsmunaaðila. Þau styrkja stöðu Sviss sem leiðandi alþjóðleg miðstöð fjártækni með því að skipuleggja viðburði, tengja saman hina ýmsu hagsmunaaðila, stunda rannsóknir, gefa út skýrslur, bjóða upp á ráðgjöf og vinnustofur, mæla fyrir bættum reglugerðum og efla félagsmenn sína og fjártæknivistkerfið bæði í Sviss og á alþjóðavettvangi.
NCE Finance Innovation
Noregur
NCE Finance Innovation er fjártækniklasi staðsettur í Bergen í Noregi. Þeirra markmið er að efla fjártækniumhverfið í Noregi, með því að ýta undir nýsköpun í tækni og samvinnu milli tækni- og fjármálafyrirtækja. Í klasanum eru 75 aðilar, staðsettir víðsvegar um Noreg.
The Factory
Noregur
The Factory er staðsett í Osló í Noregi og er einn stærsti fjártækniklasi á Norðurlöndunum.
Klasinn vinnur mikið með öðrum fjártækniklösum, bæði á Norðurlöndunum og víðar, til þess að skapa tækifæri fyrir nýsköpunarfyrirtæki þvert á landamæri. The Factory var stofnað árið 2015 og hefur upp á að bjóða stærstu hraðla á Norðurlöndunum fyrir fjártækni, fasteignatækni (e. proptech), tryggingatækni (e. insurtech), reglutækni (e. regtech), gervigreind og bálkakeðjur.